Já.is

Símaskráin

Hér finnur þú Símaskrána 2016:

Á höfuðborgarsvæðinu:

  • Í verslun Símans í Smáralind
  • Í verslunum Vodafone í Skútuvogi og Smáralind
  • Í verslun 365 í Skaftahlíð 24
  • Á skrifstofu Já, Álfheimum 74, Glæsibæ

Á landsbyggðinni:

  • Í verslun Símans á Akureyri.
  • Í verslun Vodafone á Akureyri.

Þjóðarspegill í 111 ár 

Sýningin ,,Þjóðarspegill í 111 ár" stendur yfir á Mokka Kaffi dagana 17. maí - 15. júní. Þar eru sýndar 15 forsíður sem Goddur hefur valið og einkenna mismunandi stíltímabil í sögu Símaskrárinnar. Sýningin er opin alla daga 9-18:30 til og með 31. maí, en frá og með 1. júní er opið alla daga 9-21.

Símaskráin 2016

Stefán Pálsson og Goddur.

Símaskráin kom fyrst út þann 15. ágúst árið 1905 og spannar saga hennar því 111 ár. Hún kemur nú út í síðasta sinn og er af því tilefni í sérstökum hátíðarbúning.

Hönnun forsíðu er í höndum Guðmundar Odds Magnússonar (Godds), prófessors við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Á innsíðum er að finna sögu Símaskrárinnar, ritaða af Stefáni Pálssyni sagnfræðingi.

„Símaskráin var heimilisvinur margra hér á árum áður. Vegna þessarar væntumþykju áttu margir það til að klæða Símaskrána sérstökum kápum. Stundum var hún jafnvel leðurklædd en miklu oftar skrýdd mynsturútsaumi með ártali og „Drottinn blessi heimilið“.

Ekki alls fyrir löngu var öllu mynstri sem finnst í íslenskum sjónmenntaarfi safnað saman úr svokölluðum Sjónabókum. Bókin var gefin út af Heimilisiðnarfélaginu. Nú þegar Símaskráin er gefin út á prenti í síðasta sinn (allavega í bili) þykir við hæfi að heiðra þessa væntumþykju með mynstrum úr þessum arfi.“

-          Goddur

„Símaskrár eru heillandi heimildir fyrir sagnfræðinga. Fyrir utan allar upplýsingarnar sem þeim er ætlað að miðla: nöfnum, heimilisföngum og starfsheitum velflestra fullorðinna einstaklinga í samfélaginu, eru þær morandi af aukavísbendingum um ótal hluti sem varða tæknisögu og áhrif tækninnar á daglegt líf.

Aukaefnið sem útgefendur Símaskrárinnar hafa bætt í hana í gegnum tíðina segir sína sögu um hvað brýnast þótti að vita. Símaskrána mátti finna á öllum heimilum og í henni var margoft flett, jafnvel á hverjum degi. Það má því treysta því að auglýsingaefni skrárinnar náði augum fólks og var hluti af hversdagslegum reynsluheimi þess. Símaskráin er því frábær gluggi inn í fortíðina, ef við bara kunnum að gægjast á réttan hátt.“

-          Stefán Pálsson