Golfklúbbur Reykjavíkur - Grafarholt

Sms

Hringja

Tölvupóstur

Upplýsingar

Um GR:

Þann 14. desember 1934 komu nokkrir ágætir menn saman til fundar í Reykjavík. Tilefnið var stofnun golfklúbbs. Hlaut hann nafnið Golfklúbbur Íslands, enda fyrsti og þá eini golfklúbbur landsins. Nafninu var breytt í Golfklúbbur Reykjavíkur þegar fleiri klúbbar urðu til. 

Aðdragandann að stofnun klúbbsins má reyndar rekja til Kaupmannahafnar þar sem nokkrir Íslendingar sem voru við nám og störf kynntust golfíþróttinni. Þar voru í fararbroddi menn eins og Sveinn Björnsson, síðar forseti Íslands, Gunnlaugur Einarsson læknir og formaður klúbbsins fyrstu árin, Valtýr Albertsson læknir og margir aðrir sem urðu síðar mjög áberandi í íslensku þjóðlífi. Sumarið 1935 var fyrsta golfmótið haldið í Laugardalnum, skammt austan við núverandi íþróttahöll. Þetta var að sjálfsögðu stórviðburður í borgarlífinu og héldu margir að hér væri um að ræða eitthvert stundargaman hjá heldra fólki borgarinnar sem fljótt félli í gleymsku. Reyndin varð allt önnur. Fyrir takmarkalausan áhuga forystumanna klúbbsins náði golfíþróttin að dafna. 

 Ekki fengu kylfingar að vera lengi í Laugardalnum, en fengu í staðinn svæði við Öskjuhlíðina í landi Leynimýrar. Fyrst urðu þeir þó að deila Sogamýrinni með beljum Reykvíkinga. Við vígslu vallarins í Leynimýri, sem var oft rangnefndur Öskjuhlíðarvöllur, var mætt Ingiríður, krónprinsessa Danmerkur og Íslands, og sló hún fyrsta höggið á vellinum. Við það tækifæri var hún útnefnd verndari klúbbsins og er það enn. 

Golfvöllurinn í Leynimýri var níu holur. Golfskáli var fremur lítill, en engu að síður varð þar mjög lífleg starfsemi. Eftir 1950 fóru borgaryfirvöld að líta til landsins, sem golfvöllurinn stóð á. Töldu flestir stjórnmálamannanna landið mikilvægara sem byggingalóðir, en sem útivistar- eða íþróttasvæði. Mörgum finnst að þarna hafi verið um mikla skammsýni að ræða. Það væri mikils virði fyrir Reykjavík ef borgin gæti státað af golfvelli í miðri borginni. Hvarvetna í heiminum líta menn öfundaraugum til þeirra borga sem hafa golfvelli miðsvæðis. Niðurstaðan varð sú að borgaryfirvöld tóku golfvöllinn undir byggingar og þvinguðu klúbbinn til að flytja starfsemi sína í óræktarland við Grafarholt í útjaðri borgarinnar.

Það reyndist mjög erfitt að byggja golfvöll í Grafarholti. Nær allan jarðveg skorti til ræktunar. Engu að síður létu kylfingar ekki deigan síga og með ótrúlegri eljusemi tókst að byggja fallegan og góðan golfvöll á staðnum. Byrjað var að leika á vellinum árið 1963 og þá aðeins á nokkrum holum en smátt og smátt voru fleiri holur teknar í notkun. Nú er hér góður golfvöllur, sem hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu, ásamt golfskála af bestu gerð. 

Völlurinn var hannaður af Svíanum Nils Sköld. Verður vart annað sagt en honum hafi tekist hönnunin afburðavel. Völlurinn er einstakur að því leyti, að engar tvær holur eru líkar. Segja má, að á vellinum séu 18 gjörólíkar holur, svo breytilegur er völlurinn að allri gerð. Þetta er mjög sjaldgæft, en einkar skemmtilegt.Umsagnir erlendra golfblaðamanna, sem heimsótt hafa völlinn eru allar á einn veg,, - þeir hafi aldrei séð slíka fjölbreytni sem í Grafarholti. 

Völlurinn er mjög hæðóttur og því nokkuð erfiður til göngu, sérstaklega af öftustu teigum. Hann er ekki mjög langur, eða 5.962 m, en það þarf mikla nákvæmni til að leika hann vel enda er vallarmetið af öftustu teigum 68 eða þrír undir pari. Metið af klúbbteigum er 63 og hefur enginn kylfingur komist nálægt því að jafna það. 

Haldin hafa verið nokkur alþjóðleg mót á Grafarholtsvelli. Má þar nefna Norðurlandameistaramót þrisvar sinnum, Evrópumeistaramót drengja og Evrópumeistaramót öldunga. Þetta segir meira en nokkur orð um þá viðurkenningu, sem Grafarholtsvöllur og Golfklúbbur Reykjavíkur njóta á alþjóðavettvangi. 
En sjón er sögu ríkari.Kylfingar geta best dæmt um gæði vallarins sjálfir eftir að hafa leikið á honum.
Mikil fjölgun hefur orðið í golfinu síðustu ár og vinsældir íþróttarinnar eru alltaf að aukast. Hjá Golfklúbbi Reykjavíkur var svo komið að Grafarholtsvöllur gat ekki annað þeim fjölda sem kominn var í klúbbinn. 
Árið 1993 var ráðist í gerð nýs 18 holu vallar að Korpúlfsstöðum. Hannes Þorsteinsson, golfvallahönnuður, var fenginn til að hanna völlinn. Golfklúbbur Reykjavíkur hafði haft þar í nokkurn tíma lítinn tólf holu völl. Allt gekk hratt og vel fyrir sig og í júní 1996 var unnt að spila níu holur á nýjum Korpúlfsstaðavelli. Ári síðar var völlurinn allur opnaður og var Korpúlfsstaðavöllur formlega vígður á Landsmóti í júlí 1997. Golfklúbbur Reykjavíkur fékk úthlutað austurenda gamla Korpúlfsstaðahússins fyrir golfskála. Þar er fullkomin inniæfingaaðstaða fyrir félaga til afnota yfir vetrarmánuðina.
Korpúlfsstaðavöllur er 6.214 m af öftustu teigum og er mjög fjölbreyttur. Margar fallegar holur eru á vellinum, en fyrri níu holur vallarins liggja í kringum ána Korpu og seinni níu liggja kringum Staðahverfi, niður að sjó og aftur upp að Korpúlfsstöðum. Best er að hver og einn takist á við þær á sinn hátt, en hafa skal þó í huga að þær sakleysislegustu refsa oft mest!


 
Mikið hefur verið gróðursett í kringum völlinn og innan fárra ára mun sú vinna fá að njóta sín á því fallega landsvæði sem völlurinn var byggður á. 
Árið 2004 voru Básar æfingasvæði við Grafarholt formlega opnaðir. Golfklúbbur Reykjavíkur fékk styrk frá Reykjavíkurborg og Royal and Ancient Golf Club of St. Andrews við uppbyggingu Bása. Æfingaaðstaðan er í heimsklassa, en þar eru þrjár hæðir, 73 upphitaðir básar og flóðlýst fimm hektara svæði til að slá boltunum á. Sumarið 2006 var æfingasvæðið í Grafarholti fullkomnað. Grafarkotsvöllur var opnaður en þar reynir á hæfni kylfinga í stutta spilinu. Völlurinn hefur 6 holur með 30 til 60 metra löngum brautum. Einnig er stór vipp- og púttflöt við Grafarkotsvöll. 
Golfklúbbur Reykjavíkur er í dag stoltur yfir því að geta boðið félagsmönnum og öðrum viðskiptavinum upp á einn af glæsilegustu golfvöllum landsins og án efa besta æfingasvæði landsins.