Í fararbroddi í fjarnámi

Háskólinn á Bifröst

Kennitala: 550269-0239

Lokað | Opnar 09:00

Háskólinn á Bifröst

Sms

Hringja

Tölvupóstur

Lokað | Opnar 09:00

Upplýsingar

Ágrip af sögu

Háskólinn á Bifröst á rætur að rekja  til Samvinnuskólans sem var stofnaður árið 1918 í Reykjavík og hóf starfsemi í desember. Skólasetningin hafði þá dregist nokkuð vegna spænsku veikinnar sem geisaði í Reykjavík. 

Í ágúst sama ár hafði stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga samþykkt að halda skóla “fyrir samvinnumenn” og varð Jónas Jónsson frá Hriflu fyrsti skólastjórinn. Jónas skilgreindi skólann sem foringjaskóla og mótaði hann eftir fyrirmynd Ruskin College í Oxford þar sem Jónas hafði sjálfur verið við nám.

Í dag er Háskólinn á Bifröst fjölbreyttur háskóli, sem býður nemendum sínum upp á fræðslu, þekkingu og þjálfun í viðskiptafræði með ýmsum áherslum, viðskiptalögfræði sem og úrvali félagsvísindagreina. Hlutverk skólans er að mennta fólk til ábyrgðar og áhrifa.

Sumarið 1955 var skólinn fluttur að Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði og hefur verið starfræktur þar síðan. Þá urðu mikil tímamót í sögu skólans. Sr. Guðmundur Sveinsson tók við sem skólastjóri af Jónasi Jónssyni, sem lét af störfum fyrir aldurs sakir. Jafnframt var skólinn endurmótaður og endurskipulagður frá grunni sem heimavistarskóli. Nú hefur hins vegar risið myndarlegt háskólaþorp á Bifröst og hafa íbúar þess náð að vera 700 talsins þegar mest var.

Skólinn stendur á landsvæði sem áður tilheyrði jörðinni Hreðavatni. Til að byrja með leigði Samband íslenskra samvinnufélaga landið af eigendum þess á Hreðavatni. Hinn 1. desember 1985, á þrítugasta afmælisári Bifrastarskólans, færðu erfingjar Hreðavatnshjónanna Sigurlaugar Daníelsdóttur og Kristjáns Gestssonar skólanum höfðinglega gjöf er þeir afhentu honum lóðina til eignar í minningu foreldra sinna. Þau Kristján og Sigurlaug bjuggu á Hreðavatni frá 1913 til 1949 en þá lést Kristján af slysförum. Þau áttu sex syni og hafði einn þeirra, Þórður, tekið við búi á Hreðavatni þegar skólastarf hófst á Bifröst.

Minningarskjöldur um þau Sigurlaugu og Kristján var settur upp á hraundranga við heimreið gamla skólahússins árið 1987. Minningarskjöldurinn er í mynd birkilaufblaðs og á honum stendur: Í minningu Hreðavatnshjónanna Sigurlaugar Daníelsdóttur og Kristjáns Gestssonar. Með þökk íslenskra samvinnumanna fyrir land Samvinnuskólans á Bifröst.

Samvinnuskólinn, Samvinnuháskólinn, Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Háskólinn á Bifröst eru ein og sama stofnunin. Fram til 1990 var skólinn deild innan Sambands íslenskra samvinnufélaga og í eigu þess. Frá 1990 hefur skólinn verið sjálfseignarstofnun. Skólinn hefur breyst mikið frá stofnun og hafa þær breytingar verið í takt við breyttar aðstæður og auknar menntunar­kröfur samfélagsins. Í upphafi var um að ræða fárra mánaða nám, en í dag útskrifast nemendur skólans með BS eða BA gráðu eftir þriggja ára háskólanám eða meistaragráðu eftir fimm ára nám en skólinn hóf kennslu á meistarastigi sumarið 2003.

Skólinn hefur frá stofnun verið skilgreindur sem viðskiptaskóli og þó ekki síður jafnframt sem félagsmálaskóli. Ávallt hefur skólinn gætt tveggja sjónarmiða sérstaklega. Annars vegar að vera jafnan í fylkingarbrjósti þróunar og nýsköpunar í fræðslustarfi. Hins vegar að halda þétt í upphafleg markmið, sígildan kjarna sem vakti fyrir stofnendum og fyrstu forráðamönnum stofnunarinnar.

Það er á vitorði flestra eða allra landsmanna sem til vits og ára eru komnir hversu drjúgan skerf skólinn hefur lagt og leggur enn til íslensks samfélags og þjóðlífs. Forðum léku stundum stormar um skólann og hann mætti nokkrum hleypidómum, framan af vegna samkeppnisstöðu samvinnuhreyfingarinnar og af stjórnmálaástæðum tengdum henni, síðan vegna þess að skólinn hefur verið í fylkingarbrjósti nýrrar hreyfingar í fræðslu- og menntamálum þjóðarinnar þegar ný viðhorf í háskólamálum ruddu sér til rúms í landinu. Við bættist einnig að kennsluskipan og vinnubrögð í skólanum voru og eru um margt með nýstárlegum hætti.

Nemendafjöldi skólans hefur hefur vaxið hratt á síðustu árum en árið 1998 voru um 120 nemendur skráðir í skólann en árið 2019 voru þeir um 700.  Við skólann eru þrjár háskóladeildir; viðskiptadeild, félagsvísindadeild og lagadeild. Þá er við skólann háskólagátt og símenntun.

Skólastjórar/rektorar frá upphafi

Punktar úr sögu Háskólans á Bifröst